Sjálfstæð rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að þessi 31 árs gamla tenniskona hafi viljandi brotið af sér og því væri ákvörðunin um fjögurra ára bann tekin. Hún gekkst undir lyfjapróf á meðan hún tók þátt á Opna bandaríska meistaramótinu í ágúst á síðasta ári og greindist með lyfið roxadustat í blóðinu.
Lyfið vinnur gegn blóðleysi og örvar framleiðslu rauðra blóðkorna, sem hjálpar til við upptöku súrefnis og hraðar endurheimt.
Halep var úrskurðuð í bráðabirgðabann í kjölfarið og hefur því tekið út rúmlega eitt ár af fjögurra ára banni. Hún má ekki taka þátt í eða mæta á neina tennisviðburði á vegum alþjóðlegra tennissambanda á meðan bannið er í gildi. Þá er nafn hennar ekki lengur að finna á heimslista kvenna í tennis, en hún sat um tíma í efsta sæti listans.