„Þetta var svekkjandi tap en samt sem áður áttu Valsmenn þetta skilið og ég óska þeim til hamingju með sigurinn. Við vorum ekki nógu góðir í dag, við vorum slakir sóknarlega og förum með mikið af dauðafærum. Almennt var skotnýtingin ekki góð og tilfinningin er að tæknifeilarnir voru alltof margir,“ sagði Sigursteinn skömmu eftir leik.
Leikurinn var jafn framan af en um miðbik síðari hálfleiks náðu Valsmenn að komast yfir og leiddu þangað til að lokaflautið gall.
„Í seinni hálfleik þá erum við komnir þremur mörkum yfir á tímapunkti og erum með móment til að klára leikinn en við förum mjög illa með leikinn. Við klikkum aftur á færum og Valsliðið er alltof gott til að geta leyft sér þannig spilamennsku.“
Sóknarleikur FH-inga gekk ekki nægilega vel upp í síðari hálfleik og skotnýtingin ekki upp á marga fiska. Gestirnir geta þakkað markverði sínum, Daníel Frey Andréssyni, að þeir voru inn í leiknum lengst af en hann varði sautján skot í leiknum í kvöld.
„Daníel í markinu var flottur og varnarlega vorum við allt í lagi. Það voru móment sem litu vel út en það vantar stöðugleika líka þar. Við þurfum að bæta okkur viku eftir viku,“ sagði Sigursteinn.
Tveir leikir eru búnir af deildarkeppninni en Hafnfirðingar sigruðu Aftureldingu í fyrsta leik tímabilsins
„Mér líst vel á mótið og þannig lagað byrjunina. Við vissum að fyrstu tveir leikirnir væru hörkuleikir og þurfum hafa okkur alla við til að ná okkar markmiðum og það er mikil vinna framundan. Þetta er önnur umferð og það á margt eftir að gerast,“ sagði Sigursteinn þegar hann var spurður út í byrjun mótsins.
Næsta verkefni er Bikarkeppni Evrópu og halda FH-ingar til Grikklands í vikunni.
„Nú setum við hausinn á fullt í það verkefni og þurfum að bæta frammistöðuna frá því í dag. Við fáum nokkra góða daga saman í Grikklandi sem við ætlum að nýta vel,“ bætti Sigursteinn við.