Í frétt Reuters um málið segir að Tarrio hafi verið fundinn sekur um samsæri gegn alríkisvaldinu fyrir að hafa hvatt til árásarinnar þrátt fyrir að hafa ekki verið viðstaddur hana.
Í síðustu viku voru tveir aðrir leiðtogar samtakanna dæmdir í fangelsi vegna árásarinnar. Joe Biggs var dæmdur til sautján ára fangelsisvistar fyrir sinn hlut og Ethan Nordean átján ára. Í maí síðastliðnum var Stewart Rhodes, stofnandi öfgasamtakanna Oath Keepers, dæmdur til átján ára fangelsisvistar. Það var þá þyngsti dómurinn í tengslum við árásina.
„Þetta var fyrirframskipulögð hryðjuverkaárás. Hann beitti og hvatti til notkunar upplýsingaóreiðu,“ sögðu saksóknarar við þinghald í dag áður en refsing Tarrios var ákveðin. Saksóknar höfðu farið fram á 33 ára fangelsi. Hann var fundinn sekur í byrjun maí síðastliðins af kviðdómi.
Ríflega 1.100 hafa verið handteknir eða ákærðir vegna árásarinnar. Minnst 630 hafa játað aðild sína að henni og 110 verið sakfelldir.