Umræddur læknir hafði þó ekki skoðað McConnell, sem er 81 árs gamall, heldur ræddi hann við einkalækna hans og „greindi“ síðasta atvikið þar sem McConnell fraus. Þá var verið að spyrja McConnell hvort hann ætlaði að bjóða sig fram aftur til þingsetu en hann hefur setið á þingi frá árinu 1984.
Hann hefur leitt þingflokkinn frá 2007.
Sjá einnig: Fraus aftur í miðri setningu
Læknirinn sagði einnig, samkvæmt frétt New York Times, að ekki væri óalgengt að fólki svimaði af og til eftir að hafa fengið heilahristing og að McConnell gæti einnig hafa skort vökva. McConnell fékk heilahristing þegar hann féll á hóteli í Washington DC fyrr á árinu.
Áköll um að McConnell stígi til hliðar hafa orðið háværari.
Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt AP fréttaveitunnar, þar sem bæði atvikin þar sem McConnell virtist frjósa eru sýnd.
Fjölmiðlar vestanhafs segja auknar áhyggjur af McConnell og innan þingflokks Repúblikanaflokksins og hvort hann geti leitt flokkinn áfram. Heimildarmenn Washington Post segja engan þingmann hafa kallað eftir fundi vegna atviksins en þingmenn eru í fríi þessa vikuna.
Mögulegt er að óskað verði eftir fundi í næstu viku, þegar þingmenn koma aftur saman í höfuðborginni.
Þrír Jónar
Þrír öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins þykja líklegir til að taka við af McConnell sem leiðtogi þingflokksins, stígi hann til hliðar eða bjóði sig ekki aftur fram á næsta ári.
Það eru þeir John Thune (62), frá Suður-Dakóta, John Cornyn (71) frá Texas og John Barrasson (71) frá Wyoming.