Flugvél Prigozhin var brasilísk, af gerðinni Embraer Legacy 600. Hún hrapaði norður af Moskvu í síðustu viku. Auk Prigozhin fórust níu aðrir sem voru um borð, þar á meðal tveir næstráðendur hans og fjórir lífverðir.
Brasilísk rannsóknarnefnd flugslysa fór fram á að fá að taka þátt í rannsókn á orsökum þess að vélin hrapaði í þágu þess að auka flugöryggi. Slík rannsókn færi fram á grundvelli alþjóðlegra reglna um rannsókn flugslysa.
Í svari rússneskra flugslysarannsakenda til þeirra brasilísku sagði að þeir ætluðu sér ekki að hefja rannsókn á grundvelli þrettánda viðauka Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) að sinni, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Viðaukinn kveður á um alþjóðleg viðmið og vinnubrögð við rannsókn flugslysa.
Skaði gegnsæi rannsóknarinnar
Vestræn ríki telja að stjórnvöld í Kreml hafi borið ábyrgð á því að vél Prigozhin hrapaði. Bandaríska leyniþjónustan telur að sprengja hafi sprungið um borð sem hafi grandað vélinni. Rússnesk stjórnvöld hafna því að hafa komið nálægt dauða Prigozhin.
Prigozhin leiddi uppreisn gegn rússneskum hermálayfirvöldum um tveimur mánuðum áður en hann lést. Áður en hún gekk lengra gerði Prigozhin samkomulag við Vladímír Pútín Rússlandsforseta með milligöngu Alexanders Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands, sem kom honum og málaliðum hans undan saksókn og leyfði þeim að leita hælis í Hvíta-Rússlandi.
John Cox, bandarískur sérfræðingur í rannsókn flugslysa, segir Reuters að alltaf verði efasemdir um áreiðanleika niðurstaðna rannsóknar á hrapinu ef Rússar rannsaka það einir.
„Mér finnst það mjög dapurlegt. Ég held að það skaði gegnsæi rússnesku rannsóknarinnar,“ segir Cox við Reuters.
Alþjóðaflugmálastofnunin segir að vél Prigozhin hafi verið í innanlandsflugi þegar hún hrapaði. Því gildi alþjóðlegar reglur ekki um rannsóknina.
Embraer-þoturnar brasilísku eru sagðar áreiðanlegar. Fjöldi sambærilegra þotna eru enn í umferð og því telur fyrirtækið og brasilísk flugmálayfirvöld brýnt að rannsaka hvað grandaði vél Prigozhin. Þau eru þó sögð eiga erfitt með að fá upplýsingar um það frá rússneskum yfirvöldum, bæði vegna refsiaðgerða gegn Rússlandi og vegna þess hversu treg þau eru til að leyfa utanaðkomandi eftirlit.