„Það er samtal í gangi og við vonumst auðvitað bara til þess að við sjáum til lands sem allra fyrst,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags-og vinnumarkaðsráðherra, í samtali við Vísi.
Áður hefur Guðmundur sagt, meðal annars í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni þar síðustu helgi, að það hafi ekki verið markmið nýrra laga um flóttafólk að það myndi enda á götunni. Framkvæmdin hafi ekki verið nægilega góð.
Hann hefur áður fundað með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra og fulltrúa sveitarfélaga og sagði hann í Sprengisandi, að öll hefðu þau verið sammála um að leita lausna í málinu.
„Þó svo að við deilum um það hvar ábyrgðin liggur, verðum við að horfa á það verkefni að passa að fólk lendi ekki á götunni. Ég segi það bara fullum fetum að framkvæmdin eins og sjá má er ekki nógu góð og því þarf að breyta.“
Er einhver tímasetning í augsýn?
„Við erum bara að flýta okkur eins mikið og mögulega er hægt, enda er málið afskaplega brýnt í mínum huga,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi í dag.