Katla María fékk að líta rauða spjaldið á 42. mínútu í stöðunni 1-1 en tæpum tíu mínútum áður hafði Selfoss jafnað leikinn eftir að hafa lent undir á upphafsmínútunum
„Þetta er svo kjánalegt,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, einn af sérfræðingum Bestu markanna um rauða spjaldið, og tók undir með Helenu Ólafsdóttur þáttastjórnanda að á þessum tímapunkti leiksins hafi Katla María bara misst hausinn.
„Þetta er líka svo leiðinlegt fyrir Selfoss sem var á þessum tímapunkti í leiknum nýbúið að jafna leikinn stuttu áður og því hafði verið smá meðbyr með þeim þarna.“
Harpa Þorsteinsdóttir, annar sérfræðingur Bestu markanna, benti einnig á að í kjölfar marksins sem Selfoss skoraði hafi brotist út smá slagsmál.
„Það er svo ótrúlega mikilvægt, þegar að þú finnur að þú ert komin í þennan gír, að þú kunnir að hemja þig. Að skilja liðið eftir í þeirri stöðu sem þær voru í, einum færri í heilan hálfleik út af einhverjum kjánaskap. Þetta er bara ótrúlega sorglegt.“
Svo fór að Þór/KA gekk á lagið einum manni fleiri og vann að lokum 2-1 sigur.
„Ég skil það kannski betur að missa hausinn ef það er ekkert að ganga eftir og þú upplifir stöðuna þannig að það sé ekkert með þér en á þessum tímapunkti er Selfoss bara inn í leiknum,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir.
Tækifæri á mikilvægum stigum fyrir Selfoss fóru í súginn en liðið situr á botni Bestu deildarinnar með ellefu stig, sjö stigum frá öruggu sæti.