„Það er mjög mikið stress í gangi fyrir leiki, mikið undir og þess háttar. Stundum missir maður stjórn á skapinu og erfitt að útskýra af hverju,“ sagði Arnar í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann var spurður spjörunum úr út í atvik í leik FH og Víkings Reykjavíkur í Bestu deild karla í fótbolta á dögunum. Atvik sem varð til þess að Arnar fékk að líta rauða spjaldið.
Arnar missti stjórn á skapi sínum í téðum leik um stundarsakir. Hann hreytti ókvæðisorðum í átt að Agli Guðvarði Guðlaugssyni, aðstoðardómara í leiknum og fékk í kjölfarið að líta rauða spjaldið. Hann gerði sig svo líklegan til þess að kasta frá sér stól á leið sinni inn til búningsherbergja en lét það þó vera.
Bílferðin heim sé mesta refsingin
„Ég byrja hvern einasta leik með ákveðna möntru í huga þess efnis að nú ætli ég að haga mér, nú ætli ég ekki að láta einhverja ákveðnar ákvarðanir fara í taugarnar á mér. Svo bara gerist eitthvað, eitt og eitt atvik í þessum leikjum og ég held að þetta sé svona stressfaktor hjá mér sem lætur eldfjallið gjósa.“
Arnar sættir sig við rauða spjaldið og segir það ekki hörðustu refsinguna þegar að svona atvik koma upp
„Mesta refsingin fyrir mig er í rauninni bílferðin heim eftir svona leiki. Ég kvíði svo fyrir því að horfa á þetta í uppgjörsþætti eða lesa um þetta í fjölmiðlum. Ég skammast mín svo mikið fyrir þetta og það er ekkert grín. Ég kvíði svo fyrir því að sjá mig hegða mér eins og fáviti en á sama tíma er það bara fín refsing fyrir mig. Á sama tíma hugsa ég líka mikið um greyið dómarana sem þurfa að þola þetta frá okkur.“
Hann telur að allir þjálfarar skammist sín þegar að svona atvik eiga sér stað.
„Og á einhverjum tímapunkti þarf að finna jafnvægið á milli þess að sýna tilfinningar og að haga sér ekki eins og algjör bjáni á hliðarlínunni líkt og ég gerði í Kaplakrika á dögunum. Af því að við viljum fá tilfinningar frá þjálfurunum, það er gott sjónvarpsefni.“
Þakklátur Pablo Punyed
En er ekki líka gott fyrir leikmenn að hafa ástríðufullan þjálfara á hliðarlínunni? Þjálfara sem er líka í baráttunni.
„Jú, en þar skiptir þetta jafnvægi svo miklu máli. Leikmenn vilja ekki að leiðtogi sinn sé að missa kúlið á hliðarlínunni. Akkúrat í þessu atviki í leik okkar í Kaplakrika á dögunum kemur einn af mínum reynslumestu leikmönnum, Pablo Punyed, til mín og hann í rauninni róaði mig bara niður og gerði mér það ljóst að mínir leikmenn hefðu fullkomna stjórn á hlutunum, væru alveg með þetta. Það var ótrúlega flott hjá Pablo að gera þetta.

„Á fundi með leikmönnum fyrir þennan tiltekna leik lagði ég mikla áherslu á að við hefðum stjórn á öllum hlutum, það var held ég ein glæra á fundinum eingöngu um það en svo fór sem fór,“ sagði Arnar hlæjandi.