Innlent

Tvær konur til við­bótar upp­­lifðu kyn­bundinn launa­mun en fengu ekki leið­réttingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konan sem fór með málið til kærunefndar jafnréttismála vakti athygli á því að hún væri ekki ein; fleiri konur hefðu uppifað kynbundinn launamun hjá Rauða krossinum en verið synjað um leiðréttingu.
Konan sem fór með málið til kærunefndar jafnréttismála vakti athygli á því að hún væri ekki ein; fleiri konur hefðu uppifað kynbundinn launamun hjá Rauða krossinum en verið synjað um leiðréttingu. Rauði krossinn

Tvær konur sem störfuðu sem lögfræðingar hjá Rauða krossinum þegar karlkyns samstarfsmaður þeirra sem sinnti sambærilegum stöfum og þær var hækkaður í launum umfram þær hafa ekki fengið leiðréttingu líkt og þriðja konan sem kærði málið til kærunefndar jafnréttismála.

Samkvæmt heimildum Vísis höfðu konurnar tvær báðar starfað lengur hjá Rauða krossinum en karlinn og þriðja konan og voru einum launaflokki ofar en þau bæði. 

Upp komst um launamuninn á milli karlsins og kvennanna þriggja árið 2021 og allar óskuðu þá eftir því að munurinn yrði leiðréttur og að þær fengju leiðréttingu afturvirkt. Öllum var neitað. 

Aðeins ein kvennanna treysti sér til að fara með málið áfram til kærunefndar jafnréttismála en í kjölfarið ákvað Rauði krossinn að greiða henni mismuninn á launum hennar og launum karlsins afturvirkt.

Rauði krossinn fór í framhaldinu fram á að málinu yrði vísað frá kærunefndinni, þar sem konan hefði fengið úrslausn sinna mála, en því hafnaði nefndin. Komst hún að þeirri niðurstöðu að um kynbundin launamun hefði verið að ræða, enda hefði Rauði krossinn játað að hafa gert mistök við greiðslu launa til konunnar og beðist afsökunar.

Hinar konurnar tvær, sem treystu sér ekki til að fara lengra með málið samkvæmt heimildum Vísis, hafa hins vegar hvorki fengið afturvirka leiðréttingu né afsökunarbeiðni. Þá hefur ekki verið haft samband við þær, hvorki eftir að gert var upp við þriðju konuna né eftir að úrskurður kærunefndar lá fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×