Ísland á þrjá keppendur í aðalflokkunum tveimur en hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu hér fyrir neðan.
Þrjár greinar fara fram í dag. Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir keppa í kvennaflokki og Björgvin Karl Guðmundsson í karlaflokki. Anníe Mist var fimmta eftir fyrsta dag en Katrín Tanja í níunda sæti. Björgvin Karl er í tíunda sæti eftir fyrsta daginn.
Eftir daginn munu tíu neðstu keppendur hjá bæði körlum og konum detta úr keppni en aðeins þrjátíu bestu fá að keppa á þriðja deginum á morgun.
Það er búist við mikilli keppni í ár en hjá konunum er heimsmeistari síðustu sex ára, Tia-Clair Toomey, ekki með. Anníe Mist er á sínum þrettándu heimsleikum en hin tvö eru með í tíunda skiptið. Ísland á því þrjá af reyndustu keppendum heimsleikanna í ár.
Tveir Íslendingar hafa lokið keppni á leikunum í ár. Bergrós Björnsdóttir varð í þriðja sæti í flokki sextán til sautján ára stelpna og Breki Þórðarson varð í fimmta sæti í flokki fatlaðra, svokölluðum Upper Extremity flokki.
Hér fyrir neðan má fylgjast með keppninni í beinni á Youtube síðu heimsleikanna. Fyrsta grein dagsins hefst rétt fyrir klukkan hálf fjögur að íslenskum tíma hjá körlunum en konurnar byrja síðan klukkutíma síðar.