Fundurinn fór fram í Portúgal þar sem Frans er nú staddur. Í tilkynningu frá Vatíkaninu segir að á fundinum hafi hlustun verið í fyrirrúmi. Í messu í Lissabon um kvöldið sagði hann að kirkjan yrði að hlusta á „angistaróp þolenda“.
Í frétt BBC kemur fram að meira en 4800 börn hafi verið misnotuð innan kaþólsku kirkjunnar í Portúgal frá árinu 1950, þar af 564 af prestum eða öðrum embættismönnum, samkvæmt skýrslu sem unnin var á ráðstefnu biskupa í Portúgal í febrúar. Forseti ráðstefnunnar sagði þær tölur algjört lágmark og líklega væri tala þolenda mun hærri.
Á síðustu árum hafa rannsóknarskýrslur leitt í ljós gífurlegan fjölda kynferðisbrotamála innan kaþólsku kirkjunnar, sem hefur orðið uppvís að því að hylma yfir barnaníð og annað ofbeldi innan hennar.
Í skýrslu sem birt var árið 2021 kom fram að um það bil 216 þúsund börn höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi af kaþólskum prestum í Frakklandi frá árinu 1950. Síðastliðinn júlí var greint frá því að kaþólska kirkjan á Spáni hefði afhjúpað nær þúsund meinta gerendur kynferðisofbeldis innan kirkjunnar sem höfðu brotið af sér á sama tímabili.
Þá greindi kaþólska kirkjan á Nýja-Sjálandi frá því í febrúar á þessu ári að um fjórtán prósent vígðra embættismanna innan kaþólsku kirkjunnar hafi verið sakaðir um kynferðisofbeldi frá árinu 1950.