Jamaíka er því komin í útsláttarkeppni HM í fyrsta sinn í sögunni, rétt eins og Suður-Afríka fyrr í dag, en þetta er í annað sinn sem Jamaíka er með.
Jamaíska liðið hefur enda þurft að berjast fyrir tilveru sinni, því að jamaíska knattspyrnusambandið ákvað að leggja það niður árið 2008, og reyndar aftur árið 2016, en liðið komst svo á HM 2019 og varð þá fyrsta kvennaliðið frá Karabíahafi til að ná því.
Á meðal helstu baráttumanna fyrir kvennaliði Jamaíku hefur verið Cedella Marley, dóttir Bobs Marley, og sjóður sem hún kom á fót hefur samkvæmt grein ESPN fjármagnað æfingabúðir liðsins í aðdraganda HM.
Móðir eins leikmanns í liðinu, Havönu Solaun, setti líka af stað söfnun á hópfjármögnunarsíðu og þannig söfnuðust nokkrar milljónir til að hjálpa liðinu.
HISTORY FOR JAMAICA!!!
— ESPN FC (@ESPNFC) August 2, 2023
THE REGGAE GIRLZ ADVANCE TO THE ROUND 16 FOR THE FIRST TIME EVER pic.twitter.com/d72zCCD6QQ
Jamaíka hefur því þurft að berjast fyrir árangri sínum innan sem utan vallar en liðið er nú komið í 16-liða úrslit eins og fyrr segir, eftir að hafa skorað aðeins eitt mark á mótinu til þessa en ekki fengið eitt einasta á sig. Marta og stöllur hennar í brasilíska landsliðinu sitja hins vegar eftir með sárt ennið.
Það ræðst á morgun hverjir andstæðingarnir í 16-liða úrslitunum verða en Jamaíka mætir sigurliði H-riðils, og Frakkar mæta liðinu úr 2. sæti. Í H-riðli er Kólumbía á toppnum með 6 stig en Marokkó og Þýskaland með 3 stig og Suður-Kórea án stiga, fyrir leikina á morgun þegar Suður-Kórea mætir Þýskalandi en Marokkó mætir Kólumbíu.