Í skýrslunni segir, samkvæmt frétt rússneska miðilsins Moscow Times, að frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar í fyrra hafi um 4,8 milljónir manna farið frá Úkraínu til Rússlands og þar af séu rúmlega sjö hundruð þúsund börn.
Þar segir einnig að fimmtán hundruð munaðarlaus börn hafi verið flutt til Rússlands og 380 þeirra hafi verið ættleidd af rússnesku fólki.
Vladimír Pútín, forseti, og Lvova-Belova eru bæði eftirlýst fyrir stríðsglæpi í tengslum við það að rússnesk yfirvöld hafa rænt fjölmörgum úkraínskum börnum og ættleitt þau til rússnesks fólks. Yfirvöld í Úkraínu segja að minnst 19.546 börnum hafi verið rænt.
Rússar hafa ekki reynt að fela þessi mannrán heldur halda þeir því þess í stað fram að um björgunarstarf sé að ræða.
Hvort sem börn eru munaðarlaus eða ekki, þá er það að ala börn upp í annarri menningu mögulegt ummerki þjóðernishreinsunar. Þess að verið sé að reyna að þurrka út menningu og einkenni óvinaþjóðar. Pútín hefur opinberlega lýst því yfir að hann styðji þessar ættleiðingar.
Sökuð um stríðsglæpi af Sameinuðu þjóðunum
Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna hafa einnig slegið á svipaða strengi en í skýrslu sem birt var í mars segir að brottflutningur barna af hernumdum svæðum í Úkraínu sé stríðsglæpur. Það sé einn af fjölmörgum stríðsglæpum sem Rússar hafi framið í Úkraínu.
Þá gagnrýndi Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Rússa í júní vegna þess að minnst 136 börn hefðu fallið í árásum Rússa. Sameinuðu þjóðirnar höfðu þá staðfest að 518 börn hefðu særst í minnst 480 árásum á skóla og sjúkrahús.
Því var einnig haldið fram að áttatíu börn hefðu fallið og 175 særst í árásum Úkraínumanna. Þessar tölur ná eingöngu yfir atviki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest.
Minnst eitt barn féll í eldflaugaárás Rússa á fjölbýlishús í Kryvyi Rih í morgun. Minnst þrír aðrir létust og tugir eru særðir eftir árásina.
Ukrainian rescue workers recover the body of a ten year old child, killed this morning in a Russian missile strike on his home in Kryvyi Rih. pic.twitter.com/vXulxVUdjU
— Jimmy Rushton (@JimmySecUK) July 31, 2023