Þráðormarnir eru af tegundinni Panagarolaimus kolymaensis sem var talin löngu útdauð. Í raun voru þessir frosnu ormar ekki dauðir heldur höfðu þeir verið á dvalarstigi (e. cryptobiosis) sem gerir það að verkum að lífsmörk þeirra eru ógreinanleg.
Áður töldu vísindamenn að þráðormar gætu aðeins enst á dvalarstigi í um fjörutíu ár. Nú hefur komið í ljós að þeir geta verið það rúmlega þúsund sinnum lengur.
Þráðormurinn Þyrnirós
Teymuras Kurzchalia, prófessor við MPI-CBG í Dresden og einn af höfundum fræðigreinar um ormana, sagði „Þessir litlu ormar gætu slegið heimsmet Guinness, hafandi verið á stigi stöðvaðrar lífsstarfsemi mun lengur en nokkur hélt að væri mögulegt.“
„Þetta er eins og ævintýrið um þyrnirós, en yfir mun lengra tímabil,“ sagði Kurzchalia einnig.
Ormarnir voru vaktir til lífsins með mat og vatni. Þeir drápust eftir mánuð en hafa getið af sér meira en hundrað kynslóðir nýrra orma.
Vísindamenn vita um fá dýr sem geta slökkt svona á sér til að bregðast við harðneskjulegum og ólífvænlegum umhverfisskilyrðum. Bessadýr, þráðormar og hjóldýr eru meðal þeirra fáu dýra sem geta gert það.