Körfubolti

Kennarinn sá hann í fangelsi eftir fimm ár en fékk í gær stærsta samning sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jaylen Brown hefur spilað allan sinn feril með Boston Celtics og er nú með samning til næstu sex ára.
Jaylen Brown hefur spilað allan sinn feril með Boston Celtics og er nú með samning til næstu sex ára. Getty/Mike Ehrmann

Bandaríski körfuboltamaðurinn Jaylen Brown skálaði væntanlega í kampavíni í gær eftir að hafa fengið stærsta peningasamninginn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta.

Boston Celtics samþykkti að gefa Brown 304 milljónir dollara fyrir fimm ára framlag til liðsins. Það þýðir að hann er öruggur með fjörutíu milljarða íslenskra króna inn á bankareikning sinn.

Jaylen Brown er vissulega öflugur leikmaður sem ætti að eiga sín bestu ár eftir. Hann er 26 ára gamall bakvörður sem var með 26,6 stig og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í síðustu leiktíð sem hans sjöunda með Boston Celtics.

Á lokatímabili samningsins, 2028-29, þá mun hann fá 69 milljónir dollara eða yfir níu milljarða íslenskra króna.

Aldrei áður hefur leikmaður í NBA deildinni fengið samning yfir þrjú hundruð milljón Bandaríkjadali.

Það voru ekki allir sem sáu þessa velgengi fyrir sér hjá Brown og þar stendur fremst kennari hans í Wheeler gagnfræðaskólanum í Georgíu fylki þegar Brown var átján ára gamall.

Kennarinn spáði því að Brown væri kominn í fanglesi innan fimm ára sem væri þá árið 2019. Þá var hann kominn í NBA-deildina og á góðri leið með að vera lykilmaður Celtics liðsins.

Síðan þá hafa margir verið duglegir að rifja þetta upp og í gær gafst enn eitt tækifæri til þess. Ekki er vitað af því hvernig kennari hafi það í dag. Hann hlýtur bara að þakka sjálfum sér fyrir að sjokkera Brown inn á rétta braut í lífinu eftir vandræðatíma þarna á undan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×