Stjórnarflokkarnir bæta lítillega við sig fylgi og Samfylkingin dalar samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofuna. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna dugar ekki til myndunar meirihluta á Alþingi.
Könnun Maskínu var gerð frá 6. júlí til dagsins í dag. Framsóknarflokkurinn mælist nú með 9,6 prósent, var með 8,8 prósent í síðasta mánuði. Flokkurinn vann hins vegar stórsigur í síðustu kosningum þegar hann fékk 17,3 prósent atkvæða.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir lítillega við sig frá síðustu könnun og mælist nú með 19,3 prósent. Þá bæta Vinstri græn við sig einu prósentustigi frá síðustu könnun og eru nú með 8 prósenta fylgi. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er hins vegar aðeins 36,9 prósent og dygði ekki til myndunar meirihluta ef kosið yrði nú.

Hins vegar dregur einnig úr fylgi Samfylkingarinnar sem hefur verið á miklu flugi í könnunum undanfarið ár. Hún mælist nú með 25,3 prósent en í maí og júní könnunum Maskínu mældist flokkurinn með rúmlega 27 prósenta fylgi.
Lítil breyting er á fylgi annarra flokka, þannig að tæplega tveggja prósenta fylgistap Samfylkingarinnar virðist að mestu leyti fara yfir til stjórnarflokkanna.