Góður árangur íslensku félaganna í Evrópukeppni undanfarin ár hefur tryggt Íslandi fjögur Evrópusæti á nýjan leik.
Athygli vekur að íslensku liðin hafa unnið sjö af átta Evrópuleikjum sínum í ár og þegar hafa tuttugu íslensk mörk litið dagsins ljós í Evrópukeppnum í sumar.
Breiðablik hefur unnið alla fjóra leiki sína þar af tvo á móti írska félaginu Shamrock Rovers. Áður höfðu Blikar unnið Tre Penne frá San Marinó og Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi í forkeppninni. Markatala Blika í Evrópu í ár er nú þrettán mörk í plús, fimmtán mörk skoruð en aðeins tvö fengin á sig.
Höskuldur Gunnlaugsson hefur skorað í þremur af fjórum leikjunum og samtals fjögur mörk. Fjórir leikmenn Blika eru komnir með tvö Evrópumörk í ár eða þeir Ágúst Eðvald Hlynsson, Jason Daði Svanþórsson, Stefán Ingi Sigurðarson og Viktor Karl Einarsson. Hin mörkin skoruðu síðan þeir Damir Muminovic, Gísli Eyjólfsson og Klæmint Andrasson Olsen.
KA-menn unnu einnig báða leiki sína á móti velska félaginu Connah's Quay Nomads og urðu úrslitin 2-0 í báðum leikjum. Daníel Hafsteinsson skoraði í báðum leikjunum en hin mörkin skoruðu Hallgrímur Mar Stefánsson og Elfar Árni Aðalsteinsson.
Víkingar töpuðu fyrri leiknum á móti Riga 0-2 en unnu 1-0 sigur í seinni leiknum í Víkinni í gær. Víkingar voru nálægt því að skora annað mark og tryggja sér framlengingu en eftir þetta tap er Evrópudraumurinn úti í Fossvoginum. Sigurmark Víkinga í gær skoraði Helgi Guðjónsson.
- Evrópusigrar íslensku liðanna sumarið 2023:
- Meistaradeild Evrópu
- Breiðablik - Tre Penne 7-1
- Breiðablik - Buducnost Podgorica 5-0
- Shamrock Rovers - Breiðablik 0-1
- Breiðablik - Shamrock Rovers 2-1
- -
- Sambandsdeild Evrópu
- KA - Connah's Quay Nomads 2-0
- Riga - Víkingur 2-0
- Connah's Quay Nomads - KA 0-2
- Víkingur - Riga 1-0
- -
- Samtals:
- 7 sigrar
- 1 tap
- 20 mörk skoruð
- 4 mörk fengin á sig
- 16 mörk í plús