Settur ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, vegna Lindarhvols sagði í kvöldfréttum okkar í gær að dómstólar þyrftu að skera út um Lindarhvolsmálið. Alþingi virtist ekki geta leyst málið og komist að niðurstöðu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir hins vegar málinu ekki lokið innan þingsins.
„Skýrslan Ríkisendurskoðunar frá 2020 um Lindarhvol er enn á borði stjórnskipunar og eftirlitsnefndar og hefur ekki verið afgreidd þaðan. Hitt er að Alþingi vísar málum ekki til dómstóla það gerir þrígreining ríkisvaldsins og er ekki á okkar borði. Málinu eða umfjöllun um þetta mál er ekki lokið af hálfu nefndarinnar,“ segir Þórunn sem á von á því að nefndin geti fjallað um málið áfram.
„Eins og allir vita þá hefur leyndarhyggjan í kringum greinargerðina sem ekki var birt í fimm ár eða svo náttúrulega stýrt miklu í umfjöllun um þetta mál. Nú hefur hún verið birt af fulltrúa í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og liggur á borðinu og þá er kannski hægt að taka efnislega umfjöllun um þetta mál. Eða allavega gera tilraun til þess að ræða málið aftur,“ segir hún. Greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda vegna Lindarhvols, hafi legið á borði þingnefndarinnar allan tímann.
„En verið bundin trúnaði og margir fulltrúar í nefndinni hafa kosið að kynna sér hana ekki vegna þess að hún var bundin trúnaði en birtingin breytir að einhverju leyti vænti ég afstöðu þeirra til málsins,“ segir Þórunn og bætir við að málið þurfi að skoða frá öllum hliðum.
„Það er að mínu dómi mjög óheppilegt fyrrverandi og núverandi ríkisendurskoðandi séu að deila um þessi mál opinberlega í fjölmiðlum. Skýrslan er á borði nefndarinnar og við verðum að taka afstöðu til framhaldsins.“
Aðspurð hvenær hún væntir þess að nefndin klári umfjöllun um málið segir Þórunn ekki strax en að hún eigi von á að nefndin hefji störf eftir verslunarmannahelgi. Þá hafi hún lesið bæði skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2020 auk greinargerðar Sigurðar.
„Ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á þessu fyrirkomulagi en ég er hins vegar búin að mynda mér spurningar sem ég þarf að fá svör við,“ segir Þórunn.