AP fréttaveitan hefur eftir heimildarmönnum sínum að maðurinn hafi verið handtekinn í gær. Þá hefur New York Post eftir heimildarmönnum sínum að maðurinn heiti Rex Heuermann. Hann ku vera 59 ára gamall og vera arkitekt.
Þegar lögregluþjónar voru að leita að Shannan Gilbert árið 2010 fundu þeir líkamsleifar fjögurra annarra kvenna á Gilgo Beach. Líkin voru öll af konum á þrítugsaldri og voru þær vafðar í svarta sekki. Maureen Brainard-Barnes, hafði horfið árið 2007, Melissa Barthelemy hafði horfið árið 2009 og þær Megan Waterman og Amber Costello hurfu árið 2010.
Næsta ár fundust svo á svæðinu líkamsleifar sex manns til viðbótar. Þar af var um að ræða fjórar konur, einn mann og eitt barn. Aldrei hefur verið sannreynt að líkamsleifarnar tengist allar sama málinu. Það er að segja að fólkið hafi verið myrt af sama manninum en talsmenn lögreglunnar hafa ítrekað sagt það ólíklegt.
Morð þessi hafa gengið undir nafninu „Morðin á Gilgo Beach“. Málið hefur vakið gífurlega athygli í gegnum árin en meðal annars hefur verið gerð kvikmynd um morðin og hvarf Gilbert sem sýnd var á Netflix.
Í einu tilfelli fannst höfuðkúpa konu sem hafði horfið árið 2003 en lík hennar fannst, að höfðinu undanskildu, skömmu eftir að hún hvarf á öðrum stað en höfuðkúpan fannst. Í öðru tilfelli tilheyrðu líkamsleifar konu sem hafði fundist látin árið 2000. Enn er ekki búið að bera kennsl á hana, samkvæmt AP.
Lík Gilbert fannst árið 2011 en hún var vændiskona, eins og margar af honum konunum voru einnig, og hvarf eftir að hún yfirgaf hús vændiskaupanda. Í fyrra sagði lögreglan að hún hefði líklega ekki verið myrt og að enginn glæpur hefði verið framinn, samkvæmt frétt CBS. Talið er mögulegt að hún hafi drukknað sökum mikillar vímu sem hún var í. Ekki eru þó allir samála um það.
Hér að neðan má sjá útsendingu héraðsmiðilsins PIX11 frá heimili Heuermann í morgun. Fjölmiðlar vestanhafs segja að hann verði færður fyrir dómara seinna í dag.