Tæpar tólf vikur eru liðnar síðan 27 ára pólskur karlmaður lést eftir að hafa verið stunginn ítrekað með eggvopni. Samkvæmt heimildum fréttastofu játaði nítján ára karlmaður sök fljótlega eftir að málið kom upp. Hann er ákærður fyrir manndráp og sömuleiðis tveir sautján ára drengir.
Þeir þrír og sautján ára stúlka hittu karlmanninn á Íslenska rokkbarnum í Hafnarfirði. Ekki liggur fyrir hvað varð til þess að átök brutust út á milli hópsins sem lauk með því að karlmanninum var ráðinn bani á bílastæði Fjarðarkaupa handan götunnar.
Allir þrír hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til fjögurra vikna. Sá elsti innan veggja fangelsis en hinir yngri á viðeigandi stofnun. Stúlkan losnaði fljótlega úr gæsluvarðhaldi eftir að málið kom upp. Fram kom í úrskurði Landsréttar að stúlkan hefði tjáð lögreglu að hún hefði ekki tekið þátt í átökunum heldur verið í fimm til átta metra fjarlægð. Átökin hefðu aðallega verið á milli tvegja.
Í kæru Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns stúlkunnar sem mótmælti upphaflegu gæsluvarðhaldi yfir henni, lagði hann áherslu á að stúlkan væri lykilvitni en ekki gerandi í málinu.
„Hún tók atvikið upp á myndband af því að foreldrar hennar höfðu sagt henni að gera það við ótryggar aðstæður. Hún upplýsti lögreglu strax um myndbandið, framvísaði því og heimilaði lögreglu að skoða símann sinn. Hún hefur í einu og öllu sagt satt og rétt frá hjá lögreglu og dregið ekkert undan og leitast þannig við að hjálpa lögreglu að upplýsa málið.“
Stúlkan er ákærð fyrir brot á hjálparskyldu. Í 221. grein almennra hegningarlaga segir að láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varði það fangelsi allt að tveimur árum, eða sektum, ef málsbætur eru.