Szijjarto skrifaði í færslu á Facebook í morgun að ríkisstjórn Ungverjalands styddi inngöngu Svía í NATO. Frumvarp þar að lútandi hefði verið lagt fyrir þing fyrir mörgum mánuðum. Ráðherrann vísaði þó ekki til þess að yfirvöld í Tyrklandi hefðu sagst ætla að styðja inngöngu Svía, eftir margra mánaða neitanir og viðræður.
Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar á síðasta ári en tyrknesk stjórnvöld hafa lengi dregið að samþykkja aðild Svía þar sem Tyrkir hafa sakar sænsk stjórnvöld um að vernda liðsmenn PKK, frelsishreyfingu Kúrda, sem tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti svo í gær að hann styddi aðild Svíþjóðar að NATO.
Í frétt SVT segir að ef tyrkneska þingið samþykkir inngöngu Svía í þessari viku sé bara Ungverska þingið eftir. Miðað við orð Szijjarto ætti það ekki að taka langan tíma.
Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, sagði í morgun að stækkun NATO væru mistök og hún myndi hafa neikvæðar afleiðingar. Vísaði hann einnig til inngöngu Finnlands í bandalagið.