Eþíópíska hlaupakonan Senbere Teferi á tvenna Ólympíuleika að baki og er fyrrum heimsmethafi í fimm kílómetra götuhlaupi. Hún hlaut þá silfur í fimm þúsund metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Peking 2015.
Hún var á meðal þátttakenda í 10 kílómetra götuhlaupi í Atlanta í Georgíuríki í Bandaríkjunum á þjóðhátíðardaginn vestanhafs og átti þar titil að verja.
Sigurinn virtist henni vís þegar hún tók ranga beygju í brautinni á lokasprettinum og fór kolranga leið. Fotyen Tesfay nýtti sér þau mistök og fagnaði sigri í keppninni og dugði endasprettur Teferi skammt þar sem hún lenti í þriðja sæti, fjórum sekúndum á eftir sigurvegaranum.
Hún hlaut þá aðeins þrjú þúsund dali í verðlaunafé fyrir þann árangur, samanborið við tíu þúsund dalina sem sigurvegarinn Fotyen fékk í sinn hlut. Teferi varð því ekki aðeins af sigrinum heldur einnig, sjö þúsund dölum, tæpri milljón króna í verðlaunafé.
Myndskeið af atvikinu má sjá að ofan.