Um var að ræða trampolín sem nýlega hafði verið sett upp á skólalóðinni. Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að sjónarvottar hafi séð til ungmenna hlaupa frá svæðinu þegar eldurinn kom upp um helgina.
Málið sé til skoðunar en lögregla hafi litlar upplýsingar undir hendi. „Hún liggur hjá okkur en það liggja engar upplýsingar fyrir. Það sáust bara einhverjir púkar hlaupa þarna frá þessu,“ segir Valgarður.
Skemmdarverkin hafa vakið athygli íbúa í Rimahverfi en í íbúahópi á samfélagsmiðlinum Facebook veltir einn íbúa fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á að íbúar leggist á eitt um að vakta hverfi sitt með foreldragöngum. „Loksins þegar Rimaskóli fær nýtt og flott dót er það skemmt,“ skrifar íbúinn.
Valgarður segir skemmdarverk í hverfinu ekki vera að færast í aukana. Slík mál komi reglulega upp þar sem oftast sé að ræða fámenna hópa ungmenna.
„Umræða um það hvort þetta sé að versna kemur upp af og til og það er ekkert þannig ástand. Það er bara því miður þannig að það þykir oft spennandi að brjóta rúður og kveikja í og hlaupa í burtum, sem er ekki gott.“