„Það var tilkynnt um líkamsárás á þriðjudag, en það liggur ekkert fyrir um að vopni hafi verið beitt,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, í samtali við fréttastofu.
Maðurinn hlaut beinbrot við árásina en var ekki í lífshættu að sögn Hlyns. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar og er á batavegi.
Árásarmaðurinn var látinn laus. „Það var ekki talin ástæða til að halda honum lengur með tilliti til rannsóknarhagsmuna. Málið er bara í rannsókn“ segir Hlynur.
Hann segir ekkert benda til þess að sérstök tengsl hafi verið á milli mannanna. Hlynur vildi ekki tjá sig um þjóðerni árásarmannsins að svo stöddu.