Valskonur eru með 20 stig og halda þriggja stiga forskoti á Breiðablik. Nýliðar FH eru svo öllum að óvörum í þriðja sæti með 16 stig.
Breiðablik og Þróttur gerðu 2-2 jafntefli í stórskemmtilegum leik á Kópavogsvelli. Katrín Ásbjörnsdóttir kom Blikum yfir en Sierra Lelii og Tany Boychuk breyttu stöðunni í 2-1 fyrir Þrótt á tveggja mínútna kafla í seinni hálfleik, áður en Taylor Ziemer náði að jafna metin fyrir Blika með skoti af vítateigslínunni.
Keflavík hefur komið mörgum á óvart í sumar og hin kínverska Linli Tu skoraði sitt fjórða mark í 1-1 jafnteflinu við Íslandsmeistara Vals. Bryndís Arna Níelsdóttir jafnaði metin snemma í seinni hálfleik og er markahæst í deildinni með sjö mörk. Valur fékk svo vítaspyrnu seint í leiknum sem Fanndís Friðriksdóttir tók, en hún skaut yfir.
Selfoss er enn á botni deildarinnar þrátt fyrir að hafa loksins getað fagnað sigri á ný, og það gegn Stjörnunni, 2-1. Barbára Sól Gísladóttir nýtti sér mistök í vörn Stjörnunnar og skoraði flott mark en Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir jafnaði með skalla, áður en Jimena López gerði sigurmark Selfoss á 34. mínútu.
FH er komið í bullandi toppbaráttu eftir 2-1 sigur gegn ÍBV. Shaina Ashouri skoraði fyrsta mark leiksins en Holly O‘Neill jafnaði fyrir Eyjakonur. Sigurmark leiksins kom eftir hornspyrnu á 70. mínútu, þegar Guðný Geirsdóttir missti boltann inn fyrir marklínuna.
Þór/KA er svo í 4. sæti deildarinnar, stigi á eftir FH, eftir 5-0 stórsigur gegn Tindastóli sem er aðeins stigi frá fallsæti.
Dominique Randle skoraði fyrsta markið á 61. mínútu og eftir það opnuðust flóðgáttir. Karen María Sigurgeirsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir (2 mörk) bættu við mörkum en Þór/KA varð að spjara sig án Söndru Maríu Jessen sem handarbrotnaði í lok fyrri hálfleiks.
Besta deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.