Innlent

Hin­rik Ingi dæmdur fyrir líkams­á­rás og fjár­kúgun

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Hinrik Ingi sparkaði ítrekað í hurð bifreiðar nálægt Kúagerði í Vatnsleysuströnd.
Hinrik Ingi sparkaði ítrekað í hurð bifreiðar nálægt Kúagerði í Vatnsleysuströnd.

Hinrik Ingi Óskarsson, crossfit keppandi og einkaþjálfari, hefur verið dæmdur til tveggja ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir uppsöfnuð brot. Lárus Guðmundur Jónsson, félagi hans, hlaut sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómurinn féll þann 13. júní síðastliðinn í Héraðsdómi Reykjaness en var birtur í dag. Fram kemur að báðir menn hafi játað brot sín skýlaust.

Hinrik var meðal annars dæmdur fyrir líkamsárás á skemmtistaðnum Auto í Lækjargötu í Reykjavík þann 20. mars árið 2022. Hafi hann slegið brotaþola ítrekað í andlitið og skallað hann með þeim afleiðingum að brotaþoli nefbrotnaði.

Fyrr á því ári, þann 18. janúar, hafi Hinrik ekið bifreið í veg fyrir aðra á Reykjanesbraut við Kúagerði í Vatnsleysuhreppi, stöðvað umferð á akbrautinni og í kjölfarið sparkað ítrekað í ökumannshurð bifreiðar brotaþola með þeim afleiðingum að hurðin og hliðarspegill skemmdust.

Fjárkúgun í Kópavogi

Þá var hann dæmdur fyrir fjölmörg umferðarlagabrot. Meðal annars fyrir að hafa keyrt undir áhrifum fíkniefna og keyrt án ökuleyfis. Auk fangelsisdóms var Hinrik sviptur ökuleyfinu ævilangt.

Hinrik og Lárus voru báðir dæmdir fyrir að hafa þann 20. október árið 2021 farið inn á skrifstofu fyrirtækis í Kópavogi og reynt að hafa af fólki fjármuni. Beittu þeir hótunum, svo sem að drepa brotaþola, fjölskyldur þeirra og kveikja í húsnæði umrædds fyrirtækis. Upphæðin sem þeir kröfðust var 200 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×