Smákafbátum er reglulega siglt að flaki skipsins fræga sem liggur á tæplega fjögur þúsund metra dýpi um sex hundruð kílómetrum undan ströndum Nýfundnalands.
Enn hefur ekki verið staðfest hve margir voru um borð, ef einhverjir, samkvæmt frétt BBC. Miðillinn vísar í samfélagsmiðlafærslur fyrirtækis sem kallast OceanGate Expeditions. Starfsmenn þess skrifuðu á samfélagsmiðla fyrir nokkrum dögum að lagt hefði verið af stað í siglingu að flaki Titanic.
Umrætt fyrirtæki rukkar ferðamenn rúmar 34 milljónir króna fyrir siglingu að flaki Titanic og kafbátaferð. Ferðalagið allt tekur um átta daga.
Þann 15. apríl árið 1912 sökk Titanic eftir að hafa rekist í ísjaka í jómfrúarferð sinni. Skipið er eitt frægasta skip heims en af um 2.200 farþegum er talið að rúmlega fimmtán hundrað hafi dáið. Flakið fannst árið 1985 en síðan þá hefur ítrekað verið kafað að því.