Ólafía Kristín Norðfjörð, eða Lóa eins og hún er alltaf kölluð, ákvað árið 2019 að segja frá því á samfélagsmiðlum að umsókn hennar um starfsnám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri hafi verið hafnað á þeim grundvelli að hún hafi tekið inn kvíðalyfið Sertral þegar hún sótti um.
„Mér fannst það í raun og veru bara vera brot á réttindum þeirra sem leita sér aðstoðar vegna þess að við eigum í dag, 2023 og þegar ég byrjaði að berjast fyrir þessu árið 2019 - og það hefur verið mikil umræða um andlega heilsu - að við eigum að geta leitað okkur aðstoðar,“ segir Lóa.
Lóa fór á fund með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, og fékk hana til að skoða málin og bæta. Í dag er tilfelli hvers og eins umsækjanda skoðað fyrir sig þó enn séu reglur í gildi.
Lóa segir það ótrúlega tilfinningu að hafa náð að útskrifast úr draumanáminu.

„Ég stóð bara rosalega stolt af sjálfri mér og fyrir að hafa ekki gefist upp á baráttunni því þetta var mjög erfiður tími. Það var mjög oft sem ég ætlaði pínu að láta þetta bara fara og finna mér eitthvað annað að gera en ég var starfandi lögreglumaður á meðan ég var að berjast við þetta og ég fékk rosalega góðan stuðning frá fólkinu í kringum mig og samstarfsfólkinu mínu að gefast ekki upp,“ sagði hún.
Lóa lítur á lögreglustarfið fyrst og fremst sem þjónustu við almenning. „Við erum að þjónusta almenna borgara og að vera til staðar fyrir fólkið í landinu.“
„Ég er ótrúlega spennt að mæta í vinnu sem menntaður lögreglumaður,“ sagði hún að lokum með lögregluhattinn á kollinum.