Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skógræktarinnar. Þar segir að kveikt hafi verið í tré í Hallormsstaðaskógi í síðustu viku en eldurinn hafi til allrar hamingju ekki breiðst út. Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, segir að lítið hafi rignt undanfarnar vikur í skóginum.
Hvetur skógræktin almenning til þess að fara varlega með eld og kveikja helst ekki eld á víðavangi. Best sé að notast eingöngu við tilbúin eldstæði eða eldskála sem víða er að finna á útivistarsvæðum í skógum landsins en ekki útbúa eldstæði á eigin spýtur í skógi eða á öðrum gróðurríkum svæðum.
Þá minnir Skógræktin á að fleira getur kveikt gróðurelda en eldspýtur, kveikjarar, sígarettur og þess háttar. Neistar frá bílum og vélum, neistar frá verkfærum á borð við slípirokka, jafnvel tómar flöskur sem fleygt er á víðavangi geta verkað sem stækkunargler og kveikt eld. Góð umgengni og aðgæsla er því það sem gagnast best gegn hættunni á gróðureldum.
Þá bendir Skógræktin á fróðleik um varnir gegn gróðureldum á vefnum gróðureldar.is og efni frá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun.
Við orlofshús og íbúðarhús á gróðurríkum svæðum er rétt að huga vel að því að hávaxinn gróður nái ekki alveg að húsum heldur sé nokkurra metra autt svæði í kring, góðar aðkomuleiðir fyrir slökkvibíla og búnaður til að bregðast við nýkviknuðum eldi svo sem eldklöppur, slökkvitæki, eldvarnarteppi, vatnsfötur og -slöngur.