Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sagði við Fótbolta.net eftir sigurinn gegn Tindastóli í gær að Fields væri „löngu farin“. Hún var síðast í leikmannahópi Vals í 2-1 sigrinum gegn Þrótti fyrir tveimur vikum.
Fields skipti yfir til Vals rétt áður en tímabilið á Íslandi hófst í lok apríl, og kom þá inn á í 1-0 sigri gegn Breiðabliki í fyrstu umferð.
Hún spilaði hins vegar aðeins tvo deildarleiki til viðbótar, þar af einn í byrjunarliði, eða samtals um 108 mínútur í Bestu deildinni. Þá var hún í byrjunarliðinu í einum bikarleik, í 2-1 tapi gegn Þrótti, en var skipt af velli á 77. mínútu, rétt áður en Þróttur jafnaði metin.
Valskonur eru á toppi Bestu deildarinnar eftir átta umferðir, þremur stigum á undan næsta liði sem er Breiðablik.
Fields, sem er 29 ára, kom til Vals eftir að hafa síðast verið á mála hjá Washington Spirit en hún var áður einnig leikmaður liða á borð við Houston Dash og Orlando Pride, auk Avaldsnes og Arna-Björnar í Noregi.