Í maí voru vörur fluttar út fyrir 82,8 milljarða króna og inn fyrir 116,8 milljarða króna, að því er segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar.
Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða var óhagstæður um 342,5 milljarða króna sem er 106,1 milljarði króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Verðmæti bæði inn- og útflutnings aukist mikið en fer minnkandi
Verðmæti vöruútflutnings í maí 2023 var 9,8 milljörðum króna minna, eða 10,6 prósent, en í maí 2022. Það fór úr 92,6 milljörðum króna í 82,8 milljarða.
Hins vegar var verðmæti útflutnings á tólf mánaða tímabili 999,1 milljarður króna og jókst um 130,8 milljarða króna miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr, eða um 15,1 prósent á gengi hvors árs.
Svipaða sögu er að segja af verðmæti vöruinnflutnings, sem drógst saman um 2,7 prósent í maí milli ára. Fór úr 119,4 milljörðum króna í 116,8 milljarða.
Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili var 1.341,6 milljarðar króna og jókst um 236,8 milljarða miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 21,4 prósent á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin var mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingavörum.