Innlent

Til­nefna ó­háðan aðila til að stað­festa full­nægjandi endur­vinnslu

Árni Sæberg skrifar
Úrvinnslusjóður og Sorpa ætla að efla eftirlit með endurvinnslu.
Úrvinnslusjóður og Sorpa ætla að efla eftirlit með endurvinnslu. Vísir/Vilhelm

Úrvinnslusjóður og Sorpa ætla í sameiningu að fá fullvissu fyrir því að sá endurvinnsluaðili, sem mun héðan í frá taka við fernum frá Sorpu, skili þeim árangri sem til er ætlast. Stefnt er að því að fernurnar verði sendar til fyrirtækisins Fiskeby Board í Svíþjóð.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Úrvinnslusjóðs og Sorpu í kjölfar þess að í ljós kom að Smurfit Kappa, endurvinnsluaðili á pappír frá Sorpu, getur ekki endurunnið fernur í sínum vinnsluferlum.

Líkt og greint var frá í dag hefur Sorpa ákveðið að láta Stena Recycling, móttökuaðila sinn á endurvinnsluefnum í Svíþjóð, flokka fernur úr blönduðum pappírsstraum Sorpu til að tryggja að fernurnar verði endurunnar.

Funduðu með ráðherra

Úrvinnslusjóður og Sorpa funduðu með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfisfis-, orku- og loftslagsráðherra í dag. Ráðherra gaf frá sér yfirlýsingu á dögunum þar sem hann sagðist líta málið alvarlegum augum og að hann myndi boða ábyrga á sinn fund.

Á fundinum í dag var ákveðið að Úrvinnslusjóður og Sorpa muni tilnefna óháðan aðila til að fylgjast með framkvæmdinni og staðfesta fullnægjandi endurvinnslu.

Þá hefur Úrvinnslusjóður krafið aðra þjónustuaðila, Terra og Íslenska gámafélagið, sem hafa safnað fernum til endurvinnslu, um staðfestingu á því að fullnægjandi endurvinnsla hafi farið fram erlendis. Gert er ráð fyrir að upplýsingar berist á næstu dögum.

„Að gefnu tilefni vill Úrvinnslusjóður einnig taka fram að sjóðurinn hefur nýlega endurskoðað skilmála gagnvart þjónustuaðilum sjóðsins í þeim tilgangi að treysta rekjanleika og vitneskju um endanlega ráðstöfun þess úrgangs sem fellur undir sjóðinn og til að efla gagnsæi í starfsemi sjóðsins,“ segir í lok yfirlýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×