Aðgerðirnar ná meðal annars til starfsfólks í leikskólum, sundlaugum, íþróttamannvirkjum, þjónustumiðstöðvum, bæjarskrifstofum, áhaldahúsum og höfnum.
Um er að ræða 29 sveitarfélög vítt og breitt um landið en Reykjavík er undanskilin þar sem þegar hefur verið samið þar. Á heimasíðu BSRB segir að um 2500 manns taki þátt í aðgerðunum sem séu umfangsmiklar og þannig raska starfsemi sveitarfélaga og lífi fólks verulega.
Áhrifanna mun gæta á að minnsta kosti 150 starfsstöðvum um allt land.
„Ábyrgð okkar allra er mikil og hefur BSRB lagt fram fjölmargar tillögur til að ná sátt. Þótt eitthvað hafi þokast í samningsátt á samningafundum síðustu daga neitar Samband íslenskra sveitarfélaga enn að koma til móts við réttláta kröfu okkar um sömu laun fyrir sömu störf. Það eru gríðarleg vonbrigði að við höfum ekki náð lengra og ljóst að mikill þungi færist í aðgerðir okkar frá og með morgundeginum og þar til lausn fæst í málið,” er haft eftir Sonju Þorbergsdóttur, formanni BSRB, á heimasíðu bandalagsins.
Ummælin lét hún falla eftir fundinn í nótt.
