Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir frá afhendingu þotunnar. Hún er sú lengsta í þessari línu Airbus, af gerðinni A321neo, og tekur alls 214 farþega í sæti. Hún var formlega afhent Play við athöfn síðdegis þar sem boðið var upp á köku og kampavín og ræðuhöld og myndatöku framan við nýja gripinn.
Það var 24. júní 2021 sem Play fór í sitt fyrsta áætlunarflug. Fyrsta árið voru flugvélarnar þrjá, í fyrra voru þær sex og núna er sú tíunda komin í flotann.
„Tíunda þotan á tveimur árum. Bara hrikalega stór dagur fyrir félagið og mikill áfangi. Og við erum auðvitað alveg í skýjunum með þetta allt saman,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play eftir að hafa tekið við flugvélinni fyrir hönd félagsins.

Flugvélin var sett saman í Airbus verksmiðjunum í Hamborg og telst því glæný úr kassanum. Play leigir hana af stærstu flugvélaleigu heims, AerCap, eins og flestar hinar. Þetta er fjórða A321-þotan í flota félagsins en hinar sex eru af styttri A320-gerðinni, sem tekur um 180 farþega.
„Margar af okkar þotum eru glænýjar. Við erum með yngsta flugflota í Evrópu. Þannig að það er frábært að taka við spánýrri vél hérna frá Airbus,“ sagði Birgir en meðalaldur flugvélanna er um tvö ár.

Nýju þotunni, TF-PLC, var flogið til Íslands í kvöld og hún fer svo í áætlunarflug í næstu viku.
„Hún fer beint í fyrsta verkefni sem er auðvitað að sjálfsögðu flug til Tenerife í næstu viku. Sumarið lítur frábærlega út og það eru bara allar vélar fullar. Ég held að við séum að fara inn í frábært ferðasumar,“ sagði forstjóri Play.

Play mun fljúga til hátt í fjörutíu áfangastaða í ár og verða um 550 manns í vinnu hjá flugfélaginu.
„Í júní förum við í fyrstu ferðirnar okkar til Aþenu, Amsterdam og Toronto sem verða sérstaklega mikilvægir áfangastaðir í tengifluginu okkar á milli Evrópu og Norður Ameríku. Eftirspurnin eftir þessum áfangastöðum í leiðakerfi okkar er mikil. Því veitir ekki af þessum liðsauka í flotann okkar á þessum mikilvæga tímapunkti sem mun auka skilvirkni og áreiðanleika í flugrekstrinum til muna,” sagði Birgir.
Hér má rifja upp fyrsta áætlunarflug Play þann 24. júní 2021: