Handbolti

Janus og Sigvaldi raka inn verðlaunum í Noregi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru að gera það gott í Noregi.
Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru að gera það gott í Noregi. Kolstad

Landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson hafa átt afar gott tímabil í Noregi eftir að þeir gengu í raðir nýríka félagsins Kolstad.

Janus var í gær valinn besti miðjumaður tímabilsins af leikmönnum deildarinnar og Sigvaldi var á dögunum valinn besti hægri hornamaður tímabilsins. Þá var Janus einnig valinn nýliði deildarinnar, en eins og áður segir eru þeir félagarnir á sínu fyrsta tímabili hjá Kolstad.

Sigvaldi vann kosninguna um besti hægri hornamaður deildarinnar með yfirburðum, en hann var með um 40 prósent kosningu. Alls voru 13 leikmenn tilnefndir til verðlaunanna.

Sigvaldi er markahæsti leikmaður Kolstad á tímabilinu með 144 mörk og rúmlega 71 prósent nýtingu.

Þá vann Janus sínar kosningar einnig með nokkrum yfirburðum, en hann er búinn að skora 70 mörk og gefa 127 stoðsendingar á tímabilinu. Af 15 sem voru tilnefndir sem miðjumenn ársins hlaut Janus 39,3 prósent kosningu og tæplega 28 prósent kosningu af 30 leikmönnum sem voru tilnefndir sem nýliðar ársins.

Janus, Sigvaldi og félagar þeirra í Kolstad tryggðu sér bæði norska deildarmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn á tímabilinu og liðið er komið í úrslitaviðureign gegn Elverum um norska meistaratitilinn. Kolstad leiðir einvígið 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×