Peningastefnunefnd Seðlabankans boðaði í gær þegar hún hækkaði meginvexti bankans um 1,25 prósentur að hún muni hækka vexti enn frekar ef spá bankans um verðbólguþróun gengi eftir. Í kvöldfréttum Stöðar 2 í gær sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að ekki yrði hikað við að hækka meginvextina í tveggja stafa tölu ef á þyrfti að halda til að ná niður verðbólgunni en næsti vaxtaákvörðunardagur er hinn 23. ágúst.

„Það sem náttúrlega nefndin metur er sá verðbólguþrýstingur sem er til staðar. Hæglega gæti nefndin ákveðið að hækka vexti miklu meira en spáin gerir ráð fyrir. Þannig að þessi mikla verðbólga nái ekki fram að ganga. Ég get alveg sagt að þetta er náttúrlega mjög stórt skref sem er stigið núna og nefndin tók. Það er í ljósi þeirrar spár sem birtist hérna og við viljum ekki endilega að raungerist með þessum hætti. Að við séum að sjá verðbólgu hanga uppi svona háa,“ sagði Ásgeir á kynningarfundi í gær.
Til að ná fram minni verðbólgu þyrftu stjórnvöld að auka aðhald í ríkisfjármálum og aðilar vinnumarkaðarins að gera hóflega kjarasamninga til langs tíma.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar tók vel í þá hugmynd í kvöldfréttum í gær að gefnum ákveðnum forsendum um aðkomu stjórnvalda. Þá sérstaklega að þau leggðu fram traustvekjandi áætlun í húsnæðismálum.

Eyjólfur Árni Rafnsson formaður samtaka atvinnulífsins segir efnahagslífið á millis steins og sleggju mikillar verðbólgu og hárra vaxta.
„Við hlustum á allar áskoranir. Ég heyrði alveg hvað seðlabankastjóri sagði í gær og hann vísaði þessu svolítið til okkar aðila vinnumarkaðarins. Við tökum náttúrlega þann bolta að sjálfsögðu alvarlega,“ segir Eyjólfur Árni. Hann vildi aftur á móti engu spá um þær launahækkanir sem samið yrði um eða aðkomu stjórnvalda sem yfirleitt kæmu ekki að málum fyrr en drög að samningum lægju fyrir.
Síðustu skammtímasamningar hefðu hins vegar verið gerðir til undirbúnings langtímasamninga. Það væri æskilegast þótt hann heyrði tvær ólíkar raddir varðandi það frá verkalýðshreyfingunni. Mikil verðbólga og háir vextir hefðu nú þegar byrjað að kæla hagkerfið með minnkandi umsvifum í byggingariðnaði. Hann reiknaði með að sú kæling færi að ná til fleiri aðila.
„Ég hef fulla trú á því að þegar sest er niður og farið yfir hlutinia verði horft á þetta með langtímasýn í huga. Það þarf að ná hvor tveggja niður, verðbólgu og vöxtum.Það er markmið allra aðila vinnumarkaðarins. Er bara markmið númer eitt,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson.