Sky fréttastöðin greinir frá því að netverjar hafi velt vöngum yfir því hvort að hinn 79 ára gamli tónlistarmaður, sem sat við hlið tónskáldsins Andrew Lloyd Webber í Westminster Abbey kirkjunni síðastliðinn laugardag, hafi í raun verið hertogaynjan af Sussex í dulargervi.
Eins og frægt er orðið mætti hertogaynjan ekki í krýninguna svo athygli vakti. Einungis eiginmaður hennar Harry Bretaprins mætti og tók hann engan sérstakan þátt í hátíðarhöldunum. Var hann sömuleiðis fljótur að fljúga aftur til Meghan og barnanna í Los Angeles að krýningu lokinni.
Sir Karl lætur orðrómana ekki á sig fá og gerir góðlátlegt grín að málinu öllu saman. Í myndbandi á samfélagsmiðlinum TikTo útskýrir hann að þetta hafi svo sannarlega verið hann, á léttum nótum.
„Ég var nokkuð hissa að heyra að nokkrir hafi haldið að ég væri Meghan Markle í dulargervi. Einhver skrifaði að ég hefði verið þarna til þess að stela krúnudjásnunum. Ég lít alltaf svona út.“
Þá tók félagi hans Andrew Lloyd Webber þátt í gríninu og staðfesti á Twitter að þetta hafi svo sannarlega verið vinur sinn en ekki hertogaynjan. „Ég get staðfest að þetta var að öllum líkindum ekki MM og að hann var ekki með krúnudjásn á sér, svo ég gat séð.“