Í fréttum Stöðvar 2 var fyrirtækið Stjörnu-Oddi heimsótt en það er til húsa í Garðabæ. Hjá því starfa núna 25 manns en hjónin Jóhanna Ástvaldsdóttir og Sigmar Guðbjörnsson stofnuðu fyrirtækið fyrir þrjátíu árum til að þróa margskyns mælitæki, einkum til rannsókna á hafi og lífríki sjávar. Nýjasta afurðin er tæki sem nefnist fiskgreinir en það nýtir myndavélatækni og gervigreind.

Sigmar segir marga óttast gervigreind en hérna sé verið að nýta hana í jákvæðum tilgangi.
„Að þjónusta umhverfi og fara vel með hlutina,“ segir Sigmar, sem er framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda.
Togari Brims, Viðey, fór í lok marsmánaðar í leiðangur til að reyna tækið á gullkarfamiðum undan vestan- og suðvestanverðu landinu. Það er fest við fiskitroll. Þróun tækninnar er samstarfsverkefni Stjörnu-Odda, Hafrannsóknastofnunar og Hampiðjunnar með stuðningi Tækniþróunarsjóðs.

„Við erum að horfa á það að nota búnað til þess að þekkja fisk í rauntíma og greina hann, bæði stærð og tegundir,“ segir Haraldur Arnar Einarsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.
Tvö mismunandi tæki hafa verið þróuð, annað til hafrannsókna en hitt til fiskveiða.
„Um borð í togurum er gríðarlegur hraði, má engan tíma missa og allir að reyna að veiða sem mest. En um borð í rannsóknaskipi er svona öðruvísi hraði. Þar verða menn að gera hlutina nákvæmt,“ segir Sigmar, sem er lærður rafmagnsverkfræðingur.

Fiskifræðingurinn segir að með þessari tækni sjái skipstjórar um leið hvort undirmálsafli eða óæskilegar fisktegundir séu að koma í trollið.
„Þeir geta tekið ákvörðun í rauntíma hvort þeir ætli að halda áfram eða hætta og fara á annan stað. Með þessu móti erum við að gefa þeim möguleika til þess að veiða betur, velja betur og spara olíu. Og ekki veitir af í dag,“ segir Haraldur.

En hvað þýðir þetta fyrir hafrannsóknir?
„Þetta er stórt stökk, að mínu viti,“ svarar hann.
Þannig þurfi ekki að endilega að veiða fiskinn til að rannsaka hann.
„Við vorum hreinlega bara með pokann galopinn og hífðum upp og það kom ekki einn sporður upp í skip. En hins vegar vorum við með þennan búnað á trollinu og mynduðum allan tímann og vissum nákvæmlega hvað við vorum að fá í gegnum trollið.“

Fiskifræðingurinn fær um leið mikilsverð gögn, eins og nákvæmlega hvar og hvænær fiskurinn kemur inn í trollið, á hvaða dýpi og hvernig botngerðin sé.
„Þetta er hagræði og þarna er líka tækifæri til þess að setja önnur mælitæki á samtímis. Þú getur verið að horfa á hvaða fiskur er að koma inn á ákveðnu dýpi, á ákveðnu hitastigi, ákveðinni seltu og annað slíkt. Þú getur verið að taka miklu meira með samtímis. Þannig að þarna er hægt að fá miklu meiri upplýsingar á stuttum tíma,“ segir Haraldur.

Og það er stefnt á alþjóðamarkað með fiskgreininn.
„Já, ekki spurning. En við viljum gjarnan byrja fyrst á Íslandi. Og ef eitthvað kemur upp á, þá erum við innanhandar. Stundum þarf kannski að gera einstaka leiðréttingar. Best að þær séu hér heldur en í Alaska kannski,“ segir Sigmar.
En má spyrja hvað svona tæki kostar?
„Nei, þú mátt ekki spyrja að því,“ svarar hann og hlær en er samt tilbúinn að gefa okkur hugmynd um þróunarkostnaðinn.
„Það er þriggja stafa tala í milljónum,“ segir Sigmar Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: