Eurovísir hitti Lilju og Önnu Clausen, listrænan stjórnanda og stílista íslenska atriðisins, í Liverpool. Anna segir að þegar Diljá vann keppnina heima hafi verið ákveðið að atriðið yrði tekið upp á næsta stig. Stjarnan yrði að grípa ljósið örlítið betur.
Viðtalið við Lilju og Önnu má finna í þriðja þætti Eurovísis. Viðtalið hefst á mínútu 11:59 í spilaranum hér fyrir neðan.
„Ég valdi silfrað efni, gervileður, sem kemur mjög vel út í lýsingunni og svo appelsínugult fóður. Þegar hún fer úr jakkanum kemur kontrast þar,“ segir Anna. Og Lilja lét ekki sitt eftir liggja.
„Þegar ég sá búninginn þá hugsaði ég að við þyrftum að gera eitthvað aðeins meira kúl, töffaralegra. Þannig að við erum að fara að vinna aðeins meira með það. Silfur-liner, meira „snatched“. Og hárið sleikt aftur.“

Inntar eftir viðbrögðum við Eurovision-tískunni í ár nefnir Anna sérstaklega hina sænsku Loreen. Og hún er einnig ánægð með hinn finnska Käärijä.
„Skemmtilegt að sjá strák hafa gaman og gera eitthvað öðruvísi. Það er mjög ferskt,“
Lilja nefnir söngkonuna Noa Kirel frá Ísrael. „Hún er líka með heilt lið með sér, einn í hverju horni. Hún er mjög kúl. Mér finnst Alexandra [norski fulltrúinn] smá lúði. Með bananaskyggingu og í víkingadressi. En hún er samt með geggjað lag,“ segir Lilja.
Brot úr kraftmiklum flutningi Diljár á búningarennsli í Eurovision-höllinni í Liverpool má sjá hér fyrir neðan. Búningur og förðun njóta sín sannarlega vel.