Vinir Kópavogs, sem á tvo fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogsbæjar, fullyrti í dag að það væri með öllu óskiljanlegt að meirihlutanum í Kópavogi hefði ekki enn tekist að ganga frá samningi við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks, um tíu mánuðum eftir að þeir voru tilbúnir af hálfu ríkisins. Vísaði félagið allri ábyrgð á bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir í skriflegu svari til fréttastofu rétt að halda því til haga að Kópavogsbær hafi nú þegar tekið á móti ríflega hundrað flóttamönnum.
Hún segir bæinn vera með málið til skoðunar. Bæjarstjórn vilji taka vel ígrundaðar ákvarðanir í þessu sem öðru. Horfa þurfi til þess að nægt húsnæði sé til staðar og að nú þegar sé skortur þar á.
Þá bendi útreikningar bæjarins til þess að samningurinn við ríkið sé vanfjármagnaður og því þurfi að huga að því hvar Kópavogur ætli að skera niður ef tekin verður ákvörðun um að taka á móti fleira flóttafólki en bærinn geri nú þegar.
Helga Jónsdóttir, annar bæjarfulltrúa Vina Kópavogs, sagði við fréttastofu í dag að húsnæðis- og aðstöðuskortur væri ekki einskorðaður við Kópavog. Önnur sveitarfélög í sambærilegri stöðu tækju þátt í verkefninu þrátt fyrir það.