Séns Fanneyjar, sem er einn efnilegasti markvörður landsins, í marki Vals kemur í kjölfarið á ákvörðun fyrrum landsliðskonunnar Söndur Sigurðardóttur sem lagði skóna á hilluna fyrir ekki svo löngu síðan.
„Mér finnst það aðalega bara skemmtileg áskorun og bara enn betra að þetta sé erfiðara og svona stórt skarð að fylla í,“ segir Fanney í viðtali sem Guðjón Guðmundsson tók við hana. „Nú þarf maður bara að sýna að maður hefur það sem þarf til að sinna þessu hlutverki.“
Fanney Inga segist aldrei hafa efast um sína eigin getu til þess að stíga upp sem aðalmarkvörður Vals.
„Maður verður að hafa trú á sjálfum sér í þessum heimi, sérstaklega í markinu því þar er þetta bara 90% sjálfstraust.“
Og að eigin sögn hefur henni liðið vel í markinu það sem af er tímabili.
„Mjög vel. Ég er með frábæra varnarlínu fyrir framan mig, ég treysti þeim fyrir öllu og ef þær klúðra eitthvað smá þá get ég bakkað þær upp. Þetta er gott samstarf okkar á milli.“
Bjóst ekki við að Sandra myndi hætta
En bjóst hún við að fá tækifæri í byrjunarliði Vals svona snemma á ferlinum?
„Manni langaði að fá tækifæri en bjóst kannski ekki við að Sandra myndi hætta, sérstaklega ekki svona fljótt en það er bara ánægjulegt að fá sénsinn og geta sýnt hvað maður getur.“
Hún tekur þessu hlutskipti hins vegar ekki sem gefnu og veit að það þýðir ekkert að slaka á.
„Maður verður alltaf að sýna sitt og sanna, sér í lagi í svona stóru liði. Það á engin fast sæti í liðinu, maður verður að standa sig í hverjum einasta leik.“