Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni lækkaði um 7,5 prósent í viðskiptum gærdagsins. Marel kynnti uppgjör félagsins eftir lokun markaða í fyrradag og kom lækkunin í kjölfarið. Á eftir Marel lækkuðu hlutabréf í Festi næst mest eða um 6,81 prósent en félagið kynnti líkt og Marel uppgjör sitt í fyrradag.
Lækkun úrvalsvísitölunnar hefur aðeins tvisvar verið meiri en í gær. Síðast þann 12. mars árið 2020 lækkaði úrvalsvísitalan svo skarpt, eða um 8,3 prósent í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. Þá var versti dagurinn þann 9. mars árið 2009 þegar vísitalan lækkaði um 26,0 prósent.
Töpuðu 7,5 milljörðum
Stærsti hluthafinn í Marel er Eyrir Invest en félagið á þar 24,7 prósent eignarhlut. Stærstu einstöku hluthafar Eyris eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson.
Þeir eiga 20,7 prósent og 18,1 prósent hlut hvor. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins kemur fram að virði þeirra hafi því í gær rýrnað samtals um 7,5 milljarða króna.
Eignarhlutur Þórðar rýrnaði um 4.401 milljónir og hlutur Árna um 3.533 milljónir. Þórður hyggst láta af störfum fyrir stjórn félagsins á aðalfundi þess í maí. Gangvirði eignarhluta Eyris í Marel lækkaði um 46 prósent í fyrra en Eyris tapaði alls 80 milljörðum króna.