Innlent

Sam­­fylkingin komin í 26 prósent

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kristrún Frostadóttir tók við sem formaður Samfylkingarinnar í lok október í fyrra.
Kristrún Frostadóttir tók við sem formaður Samfylkingarinnar í lok október í fyrra. Vísir/Vilhelm

Fylgi Samfylkingarinnar hefur aukist um tæp sextán prósentustig frá Alþingiskosningum í september 2021. Fylgi flokksins mælist nú 25,7 prósent, tæpum sjö prósentustigum meira en fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Í nýrri skoðanakönnun, sem Maskína gerði fyrir fréttastofu, kemur fram að samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki mælst minna og nemur nú 37 prósentum. Stærstur ríkisstjórnarflokkanna er Sjálfstæðisflokkurinn, með 18,7 prósenta fylgi, þar á eftir Framsóknarflokkurinn með 10,2 prósenta fylgi og Vinstri græn með 8,2 prósent.

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki verið lægra en þeir fengu samtals 54,4 prósent atkvæða í Alþingiskosningunum.

Þá hefur fylgi Samfylkingarinnar aukist mjög síðan í síðustu þingkosningum þegar flokkurinn fékk 9,9 prósent atkvæða. Hann mælist nú með 25,7 prósenta fylgi og hefur það aukist jafnt og þétt frá síðasta sumri, þegar flokkurinn fór lægst í 8,3 prósenta fylgi.

Stjórnarandstaðan með 63 prósenta fylgi

Samfylkingin er ekki eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem hefur bætt við sig fylgi þó hún sé lang stærst. Fylgi Viðreisnar mælist nú 10,6 prósent en var 8,3 í þingkosningunum. Fylgi Pírata mælist 11,4 prósent en var 8,6 prósent í kosningunum og Miðflokkurinn hefur aukið fylgi sitt úr 5,4 prósentum í 6 prósent. 

Fylgi Flokks fólksins hefur minnkað um helming frá þingkosningum. Flokkurinn hlaut 8,8 prósent atkvæða en mælist nú með 4,4 prósenta fylgi. Það er minna en fylgi Sósíalista, sem nú mælist 4,9 prósent. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×