Hilmar Árni er nýlega búinn að jafna sig á krossbandaslitum í hné og missti af öllu síðasta tímabili af þeim sökum.
Þegar hann meiddist á sama hné í leik helgarinnar óttaðist hann því það versta.
„Ég var hættur í fótbolta þarna í sólarhring. En ég er miklu betri í dag,“ segir Hilmar Árni í samtali við Vísi.
Eftir myndatöku kom í ljós að meiðslin eru ekki alvarleg og gæti hann snúið aftur á völlinn innan tíðar.
„Ég fékk úr myndatökunni í gær og þetta lítur vel út. Ég verð vonandi klár fljótlega,“ segir Hilmar.
Stjarnan er án stiga í Bestu deild karla eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins en komst áfram í Mjólkurbikarnum í gær eftir dramatískan heimasigur á ÍBV, þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma framlengingar.
Næsti leikur Garðbæinga er á heimavelli við nýliða HK á mánudagskvöldið. Hilmar Árni útilokar ekki að hann geti snúið aftur í leikmannahóp liðsins fyrir þann leik.