Handbolti

Nígerískt undur skaut Flensburg í kaf

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yusuf Faruk skoraði tíu mörk í fræknum sigri Granollers á Flensburg í Flens-Arena í gær.
Yusuf Faruk skoraði tíu mörk í fræknum sigri Granollers á Flensburg í Flens-Arena í gær.

Spænska liðið Granollers kom flestum á óvart með því að slá Flensburg úr leik í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta karla í gær.

Granollers tapaði fyrri leiknum gegn Flensburg, 30-31, en gerði sér lítið fyrir og vann þann seinni í gær, 27-35. Granollers vann einvígið, 65-58 samanlagt, og er þar með komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Flensburg komst aldrei yfir í leiknum og var í miklum vandræðum með sprækt lið Granollers. Svo fór að Spánverjarnir unnu átta marka sigur. Þetta var stærsta tap Flensburg á heimavelli í Evrópukeppni í tólf ár, eða síðan liðið tapaði 38-24 fyrir Ciudad Real 2011.

Markahæsti leikmaður Granollers og vallarins var Yusuf Faruk. Hann skoraði tíu mörk úr tólf skotum. Eitt þeirra, sem Faruk skoraði með frábæru undirhandarskoti, má sjá hér fyrir neðan.

Faruk þessi er nítján ára hægri skytta frá Nígeríu. Hann er samningsbundinn Kielce í Póllandi en er í láni hjá Granollers. Þessi gríðarlega efnilegi leikmaður hefur skorað 65 mörk í Evrópudeildinni í vetur.

Næstmarkahæsti leikmaður Granollers gegn Flensburg var hinn 39 ára Antonio García. Hann gerði átta mörk og þeir Faruk voru samtals með átján af 35 mörkum spænska liðsins. Rangel Luan da Rosa varði vel í marki Granollers, alls fimmtán skot (37,5 prósent).

Auk Granollers eru Göppingen, Füchse Berlin og Montpellier komin í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Úrslitahelgi hennar fer fram í Flensburg 27.-28. maí. Dregið verður í undanúrslitin á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×