Samkvæmt dagbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina fór skemmtanahald að mestu leyti friðsamlega fram á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Verkefni lögreglunnar voru að mestu leyti tengd umferð og akstri undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Tilkynnt var um unga drengi að fara inn í grunnskóla í umdæmi lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu. Drengirnir voru farnir á brott þegar lögregla kom á vettvang en þeir höfðu þegar valdið eignaspjöllum.
Þá var tilkynnt um mann reyna að komast inn í bíla í einu af bílastæðahúsum borgarinnar. Óvíst er hvort honum hafi orðið kápan úr því klæðinu.