Vandamálin tengjast VISA greiðslukortum hjá viðskiptavinum Landsbankans, Arion banka og Indó sem notuð hafa verið í Danmörku eða til að versla með danskar krónur. Villan kom í kjölfarið á því að aukastafir, það er aurar, voru felldir niður hjá íslensku krónunni.
„Við lokuðum öllum kortum í stutta stund á meðan við vorum að reyna að átta okkur á þessu,“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Indó. „Síðan opnuðum við þau aftur og núna erum við að vinna í að leiðrétta þessar heimildafærslur sem fóru margfaldar í gegn.“ Enn þá eru villur að koma upp.

Samkvæmt Heimildinni eru dæmi um að færslur hafi farið hundraðfaldar í gegn. Það er að 120 þúsund krónur hafi verið gjaldfærðar á íslenskt greiðslukort fyrir lestarmiða sem kostaði 1.200 krónur í Danmörku.
Korthafar fá ekki heimild
Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að búið sé að koma í veg fyrir truflanir á greiðslum með íslenskum kortum í Danmörku. Ekki sé þó útilokað að upp komi frekari truflanir.
„Okkur þykir miður að viðskiptavinir hafi orðið fyrir óþægindum vegna þessa. Við biðjumst velvirðingar og þökkum fyrir þolinmæðina,“ segir í tilkynningu bankans.
Svipað er uppi á teningnum hjá Arion banka. Í tilkynningu bankans segir að upp hafi komið frávik í Danmörku sem felast í að korthafar fái ekki heimild á kort sín þar sem færslur margfaldist.
„Unnið er að lagfæringu og í þeim tilfellum þar sem margfaldar færslur fara í gegn þá verða þær leiðréttar,“ segir í tilkynningunni. „Ef söluaðili býður upp á greiðslu í íslenskum krónum þá er möguleiki fyrir viðskiptavini að velja þann kost á meðan þessi truflun er í gangi.“
Mastercard á morgun
„Við biðjum okkar viðskiptavini að láta okkur vita ef þeir sjá eitthvað óeðlilegt í færslunum,“ segir Hjördís. En á þessari stundu sé aðeins vitað um villur tengdar Danmörku.
Þá bendir hún líka að á morgun mun Mastercard fella niður aurana. En það eru aðeins viðskiptavinir Íslandsbanka með þau kort. Vert sé fyrir þá að fylgjast með færslum.