Innlent

Í gæslu­varð­hald vegna stungu­á­rásar í Reykja­nes­bæ

Kjartan Kjartansson skrifar
Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. Vísir/Egill

Landsréttur staðfesti tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem er grunaður um að hafa stungið annan mann í hendina í Reykjanesbæ um páskana. Maðurinn er sagður dvelja ólöglega á landinu og hafa komist ítrekað í kast við lögin.

Lögreglu var tilkynnt um árásina skömmu eftir miðnætti á öðrum degi páska. Maðurinn sem er í varðhaldi er grunaður um að hafa stungið mann í hendina eftir að hafa áður hótað félaga fórnarlambsins. Hann hafi einnig haft hafnaboltakylfu meðferðis.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. apríl í Héraðsdómi Reykjaness sama dag og árásin var gerð. Landsréttur staðfesti úrskurðinn í gær.

Við rannsókn málsins kom í ljós að sá grunaði dvelur ólöglega á Íslandi. Honum hafi verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa honum brott 4. janúar. Hann hafi ekki orðið við því og í staðinn sótt um dvalarleyfi sem aðstandandi Íslendings en verið hafnað.

Maðurinn hafi ekki sinnt tilkynningaskyldu undanfarna mánuði og stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi ítrekað reynt að ná tali af honum til þess að undirbúa brottvísun hans án árangurs.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir ennfremur að maðurinn hafi ítrekað komið við sögu lögreglu frá árinu 2020. Hann eigi nokkur mál í refsivörslukerfinu sem sé ólokið, einkum vegna brota á lögum um útlendinga, fíkniefnalagabrot og ætlaðs peningaþvættis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×