Þetta kemur fram í ítarlegri frétt Reuters um málið. Þar er haft eftir fyrrverandi starfsmanni að myndskeið sem sýndi bílslys, þar sem Teslu var ekið á barn á hjóli, hafi gengið sem eldur í sinu um skrifstofu Tesla í Kaliforníu.
Þá segir að starfsmenn hafi deilt myndum af einstökum Lotus Esprit, sem búið er að breyta í kafbát. Áhugafólk um James Bond ætti að þekkja bílinn enda ók kappinn honum í kvikmyndinni the Spy Who Loved Me frá árinu 1977.

Svo virðist sem starfsmennirnir sem deildu myndum af bílnum hafi verið að njósna um eigin yfirmann. Elon Musk keypti bílinn nefnilega á uppboði árið 2013 fyrir tæplega eina milljón Bandaríkjadala.
Þá segir í frétt Reuters að Tesla fullyrði að myndavélum um borð í bifreiðum fyrirtækisins sé einungis ætlað að aðstoða við akstur og að friðhelgi einkalífs viðskiptavina sé fyrirtækinu mjög mikilvæg.