Notandinn Kat Wellington deilir myndbandinu með yfirskriftinni: „Ég get sjálfri mér um kennt.“ Þegar fréttin er skrifuð hafa tæplega 550 þúsund „líkað við“ myndbandið, sem birt var í gær, og 6,6 milljónir hafa horft á það.
Notendur taka undir og ein segir til dæmis í athugasemd: „Um leið og þú minntist á Bláa lónið hugsaði ég: Ó, nei.“
Wellington segist hafa lagt hárið í bleyti, bókstaflega, og fljótt séð eftir því. Nú sé það alls ekki eins og það eigi að vera.
Fréttablaðið vakti nýlega athygli á sambærilegu myndbandi þar sem TikTok-notandinn Reanne Brown, sem heldur úti vinsælli síðu, varaði við sambærilegu athæfi. Hún sagði einfaldlega: „Ekki bleyta á ykkur hárið. Ég er búin að þvo það fjórum sinnum og það er enn ekki eins og það á að vera.“
Aðrir benda henni á að starfsmenn Bláa lónsins vari fólk við því að bleyta á sér hárið og sumir bregða jafnvel á það ráð að setja hárnæringu í það, áður en farið er út í.